news

Tilnefning til hvatningarverðlauna fræðsluráðs Reykjanesbæjar

12. 06. 2020

Foreldraráð í leikskólanum Gimli tilnefndi til hvatningarverðlauna Reykjanesbæjar hana Sigurbjörgu leikskólakennara og jógaleiðbeinanda barna. Sibba eins og hún er alltaf kölluð er vel að þessari tilnefningu komin þar sem hún er búin að leiða jógastundir á Gimli síðan 2012 ásamt því að stýra kjarna með kærleik, gleði og vináttu að leiðarljósi.

Sibba hefur lagt sitt af mörkum til skólasamfélagsins í Reykjanesbæ og meðal annnars haldið fyrirlestur um gagnsemi jóga í leikskólastarfi, sent myndbönd til foreldra og verið með jógastund í Bókasafni Reykjanesbæjar.

Nú hefur Sibba sett sér nýtt markmið með jóga kennslu sem gengur út á að færa jógað meira út í náttúruna og upplifa breytileika hennar með því að taka betur eftir umhverfi okkar og skynja það. Þess má geta að Sibba verður verkefnastýra yfir nýja þróunarverkefninu okkur ,,Jóga og núvitund í vettvangsferðum''.

Smá brot úr umsögn foreldraráðs: ,,Sibba er einstaklega metnaðarfull, mætir okkur foreldrum og börnum með brosi og kærleika ALLA morgna. Hún sýnir sanna virðingu, athygli og metnað í hverju sem hún tekur sér fyrir hendur, hvort sem það er jóga eða hefðbundið skólastarf. Að Sibba hafi helgað sig leikskólastarfi er okkar lukka, við foreldrar höfum velt því fyrir okkur hvernig það sé hægt að vera ALLTAF í góðu skapi og með metnaðinn í botni''.

Við óskum Sigurbjörgu hjartanlega til hamingju með tilnefninguna og foreldraráði leikskólans fyrir að tilnefna hana.

© 2016 - Karellen