Innskráning í Karellen


Frá árinu 1999 hefur leikskólinn starfað eftir Hjallastefnunni. Þar er lögð áhersla á einfalt og jákvætt starfsumhverfi sem einkennist af vináttu, kærleika, virðingu og gleði. Deildirnar/kjarnarnir eru kynjaskipti og aldursskiptir. Skólinn hefur notið góðs af faglegri leiðsögn Margrétar Pálu Ólafsdóttur, en hún er höfundur Hjallastefnunnar.

Hátt hlutfall fagmenntunar meðal starfsfólks, menntandi vinnuumhverfi fyrir bæði starfsfólk og börn, virk foreldraþáttaka og elskulegt andrúmsloft eru þeir þættir í starfinu okkar sem við erum stoltust af og skilar okkar þeim árangri sem við sækjumst eftir; ánægðum börnum, ánægðum foreldrum og ánægðu starfsfólki.

Árið 1971 var leikskólinn Gimli tekinn í notkun og hefur hann verið rekinn af bæjarfélaginu, en þann 30.desember árið 2004 gerði Karen Valdimarsdóttir þjónustusamning við Reykjanesbæ og stofnaði fyrirtækið Karen ehf. Samningurinn var í fyrstu til eins árs en síðan endurnýjaður í lok ársins 2005 til næstu þriggja ára eða til lok ársins 2008. Þá var einnig gerður samningur við Hjallastefnuna ehf. sem veitir Gimli aðgang að allri þeirri þjónustu sem Hjallastefnan ehf. hefur upp á að bjóða.

Byggt var við leikskólann sumarið 1996 og var viðbyggingin formlega tekin í notkun í september sama ár. Laus kennslustofa var sett við leikskólann haustið 2006 og er skólinn nú 500,7 ferm á stærð og eru kjarnarnir 4 og nefnast Ásgarður, Bifröst,Valhöll og Útgarður en Iðvöllur er salur/ fjölnotarými leikskólans. Öll heitin eru úr hinni norrænu goðafræði. Boðið er upp á 4 - 8 1/2 tíma vistun og opnunartíminn er frá kl. 7:45 til 16:15. Nú dvelja 81 börn í leikskólanum.


© 2016 - Karellen