news

Lota 4 - Jákvæðni

09. 01. 2022

Mánudaginn 10. janúar byrjum við í jákvæðnilotunni sem er 4. lotan í kynjanámskrá Hjallastefnunnar.

Orð lotunnar eða lotulykar eru: ákveðni, hreinskiptni, bjartsýni og gleði. Jákvæðnilotan er upphaf nýrrar annar og er frábært að slá jákvæðan takt inn í skólastarf vorannar. Vitaskuld er jákvæðni alltaf í fyrirrúmi alla daga skólaársins en þarna er tækifæri til að formgera jákvæðniæfingar. Vinna með jákvæð orð og jákvæðar setningar og gleðisöngvar eru meðal þess sem við vinnum mikið með. Jafnframt er mikilvægt að fjalla um bjartsýni og hvernig hún birtist okkur í lífinu. Gleðin er æfð með öllum tiltækum ráðum, söngur og hreyfing ýtir best við þeim boðefnum heilans sem valda taugafræðilegri gleði. Ræðum mun á gleði og fýlu og hvernig við notum orðin okkar fallega við hvort annað. Ræðum t.d. hvað er fýlustjórnun og grátstjórnun?

Í jákvæðnilotunni vinnum við með hláturjóga. Það er vísindaleg staðreynd að líkaminn okkar bregst við á sama hátt hvort sem hlegið er vegna ytra áreitis (fyndið atriði) eða ákveðið er að hlægja upp úr þurru (án þess að sjá eh fyndið). Það eru ótal jákvæð áhrif af hlátri, til dæmis minnkar hann stress og leysir úr læðingi góð boðefni í heilanum sem veldur góðri líðan. Því er tilvalið að geta kallað það fram í amstri dagsins ~ hláturjóga kennir þér það.

Hláturinn lengir lífið segir í máltækinu ... og gerir alla daga skemmtilegri :)

© 2016 - Karellen