Innskráning í Karellen
news

Listahátíð barna 2017

24. 04. 2017

Nú er komið að Listahátíð barna í Reykjanesbæ sem verður haldin í tólfta skiptið. Hátíðin verður sett 4. maí og verður sýningin opin til 21. maí. Þemað að þessu sinni er Dýrin mín stór og smá. Nemendur og kennarar á Útgarði unnu markvisst að þemanu. Byrjað var á kosningu nemenda um hvaða dýr þau myndu búa til og voru það krókódíll og úlfur sem báru sigur úr býtum í þeirri kosningu. Síðan var farið í að kynna sér dýrin betur með því að skoða myndir og myndbönd. Einnig var mæld raunveruleg stærð á dýrunum og var unnið út frá því að skapa dýr í raun stærð. Nemendur unnu dýrin úr pappa, bjuggu til fullt af kúlum úr dagblöðum og röðuðu og límdu kúlurnar saman til að mynda búkinn á dýrunum. Þar á eftir voru notuð dagblöð og veggfóðurslím til að móta búkinn og að lokum var smá gifs borið á. Krókódíllinn fékk eggjabakka á bakið til að mynda hrjúfu áferðina á baki krókódílsins. Svo voru dýrin máluð og öðrum smáatriðum bætt við. Ásgarður, Bifröst og Valhöll bjuggu til steina fyrir úlfinn, og vatnið og vatnaliljur fyrir krókódílinn.

Elstu nemendur á Útgarði fara á setningu hátíðarinnar sem verður 4. maí ásamt öllum elstu nemendum leikskólanna í Reykjanesbæ. Það verður spennandi að sjá afrakstur þessara upprennandi listamanna í Reykjanesbæ.


© 2016 - Karellen