Innskráning í Karellen
news

Lærum og leikum með hljóðin

29. 01. 2019

Á starfsmannafundi í gær kom Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur með fræðslu fyrir kennarana á Gimli.

Það er alltaf gott að fá upprifjun fyrir okkur kennara, fá nýjar hugmyndir og sjá hvað við erum að gera góða hluti í því að efla málþroska barnanna hér á Gimli.

Eins og við vitum þá skiptir gott samstarf heimilis og skóla miklu máli í þessum efnum. Rannsóknir sýna að málörvun skiptir sköpum og eins og Bryndís segir þá eigum við að ,, baða börnin í tungumálinu,, öllum stundum. Mikilvægt er að takmarka tíma barna í snjalltækjum, og sjónvarpsáhorf. Tæknin er góð en látum hana ekki koma í veg fyrir að við gefum okkur tíma til að veita börnum okkar athygli, vera til staðar og tala við þau.

Efnið hennar Bryndísar Lærum og leikum með hljóðin er mjög vandað og hvetjum við ykkur foreldra til að kynna ykkur það nánar. Við kennarar vinnum með efnið hér á Gimli og er þar verið að vinna með íslensku málhljóðin, framburð hljóða, hljóðvitund og orðaforða. Fyrir þá foreldra sem vilja kynna sér efnið betur er þetta slóðin á síðuna https://laerumogleikum.is/

Hér eru nokkrir punktar frá Bryndísi sem gott er að hafa í huga.

-Mikilvægt er að foreldrar lesi daglega fyrir börn sín til að auka orðaforða þeirra.

-Í bókum er notað formlegra málfar og fjölbreyttari orð en við notum í talmáli okkar. Einnig er hægt að skoða og ræða um myndirnar, skoða ný orð og setja þau í samhengi við orð sem barnið þekkir.

-Hafa bækur aðgengilegar á heimilinu og jafnvel hafa með í bílnum svo barnið geti skoðað.

-Hljóðbækur til að hlusta á í bílnum geta hentað börnum sem eiga erfitt með einbeitningu.

-Bókasafnið í Reykjanesbæ er mjög gott og með fjölbreytt úrval bóka. Fyrir tvítyngt börn eru þar líka bækur t.d. á ensku og pólsku.

-Samræður við barnið skipta miklu máli, hvort sem það eru umræður við matarborðið, tala um það sem fyrir augum ber t.d. í gönguferðum. Einnig setja orð á athafnir s.s. ,,nú ætlum við að fara í bláu vettlingana því það er kalt úti,,.

-Rannsóknir sýna að börn læra frá 3 – 14 ný orð daglega og að seinkun í málþroska geti haft áhrif á námsárangur.

-Gott atlæti og örvun frá unga aldri hefur mikilvæg áhrif á námsgetu síðar á lífsleiðinni.

-Hvaða forskot viljum við gefa börnum okkar?

Með bestu kveðju, kennarar á Gimli

© 2016 - Karellen