news

Heilsu- og forvarnarvika á Suðurnesjum

29. 09. 2019

Heilsu- og forvarnarvika á Suðurnesjum verður haldin 30. september. – 6. október. Markmiðið með heilsu- og forvarnarviku er að draga úr þeim áhættuþáttum sem einstaklingar geta staðið frammi fyrir á lífsleiðinni og hlúa að verndandi þáttum með þátttöku allra bæjarbúa. Fyrirtæki og stofnanir á svæðinu bjóða upp á fjölbreytta dagskrá sem almenningur er hvattur til að kynna sér á vef Reykjanesbæjar.

Nemendur og kennarar á Gimli eru dugleg að hreyfa sig á hverjum degi í leik og starfi. Hvort sem það er í gegnum frjálsa leikinn á valtímum, á útisvæði, í vettvangsferðum, Leikur að læra verkefnum, ýmsum verkefnum í hópatímum, jógastundum og fl.

Eftirfarandi pistill er af vef Embætti landlæknis: Jákvæð reynsla af hreyfingu á unga aldri eykur líkurnar á að fólk temji sér lífshætti sem fela í sér hreyfingu á fullorðinsárum. Dagleg hreyfing er börnum nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt, þroska og andlega vellíðan. Hún er sameiginlegur leikur sem skapar meðal annars tækifæri til að styrkja tengslamyndun á milli foreldra og barns, þjálfa hreyfifærni, bæta líkamshreysti, eignast vini, auka félagslega færni og efla sjálfstraust. Mikilvægast er að börn hafi tækifæri til að stunda fjölbreytta hreyfingu sem þeim finnst skemmtileg og er í samræmi við færni þeirra og getu.

Jóga er ein af okkar námsleiðum og hefur verið það frá árinu 2007. Öll börn á Gimli fara í jógastund einu sinni í viku. Markmiðið með jógastundunum er að æfa sig að vera hér og nú – núvitund, rækta vitund um líkamlegt – og andlegt heilbrigði, hafa kærleika og gleði að leiðarljósi. Við eflum fjölbreyttan orðaforða, orðaskilning og stærðfræði í gegnum umræður, sögur og ævintýr sem við vinnum með í hverri jógastund. Umræðurnar og sögurnar í jógastundum er fléttað saman við kynjanámskrá Hjallastefnunnar. Við eflum einstaklings- og félagsfærni barnanna með ýmsum leiðum. Vinnum með orð hverrar lotu sem tengjast dyggðum, tilfinningum, sjálfstrausti, samkennd, samskiptum og vináttu. Ræðum merkingu þeirra, setjum þau í samhengi og æfum okkur að setja okkur í spor annarra.

Jógastundin fer fram í rólegu umhverfi og skiptist í upphitun þar sem gerðar eru léttar teygjur, öndunaræfingar, umræður og kærleikssteinninn látin ganga á milli barnanna. Síðan er aðalæfingu þar sem við förum í ævintýraferð út frá sögunni sem sögð er hverju sinni. Í lokin er slökun þar sem allir liggja og slaka eða fá kærleiksnudd.

Að auki við það sem hér hefur verið talað um þá er ávinningurinn af jógastundunum mikilvægur hluti af heilbrigði hvers nemanda. Við erum saman í rólegri stund þar sem við eflum einbeitningu, athygli, hlustun og þolinmæði. Með því að gera stöðurnar og hinar ýmsu teygjuæfingar eflum við styrk og liðleika líkamans. Umræður um tilfinningar og líðan kennir samkennd, gagnvart sjálfum sér og öðrum. Auk þess sem líkamsvitund og trú á eigin getu styrkist. Börnin læra aðferðir sem þau geta nýtt sér hvar og hvenær sem er.

Í heilsu- og forvarnarvikunni ætlum við að bjóða þeim foreldrum sem hafa tök á að taka þátt í jógastund með okkur.

© 2016 - Karellen