Innskráning í Karellen
news

Fyrsta lota kynjanámskrá Hjalla

30. 08. 2019

Mánudaginn 26. ágúst hófst fyrsta lota skólaársins samkvæmt kynjanámskrá Hjallastefnunnar. Fyrsta lotan er Agi og eru lotulyklar: virðing, hegðun, kurteisi og framkoma.

Löngum er haft á orði að þetta sé mikilvægasta lotan í þeim skilningi að hún er nauðsynlegur undanfari alls annars í námskránni okkar og jafnvel í öllu skólastarfinu. Börnin þurfa að læra á umhverfi sitt, helstu hegðunarreglur og læra góðan samskiptamáta við hin börnin til þess að starf vetrarins geti verið friðsælt, árangursríkt og ánægjulegt.

Langstærstur hluti þess aga sem Hjallastefnan viðhefur í skólum sínum er fyrirbyggjandi. Til dæmis eru R-reglurnar í hávegum hafðar í Hjallastefnustarfi; röð, regla og rútína í fyrirrúmi á öllum sviðum. Þaulhugsuð dagskrá og einfaldleiki í öllu skipulagi.

Þjálfun í kurteisi og mannasiðum, æfing í að heilsast og kveðjast, borðsiðir og umgengni um fataklefa eru raunveruleikatengd verkefni í þessari lotu. Framkomuhæfni í kynjablöndun þarf að æfa sérstaklega og tölum við gjarnan um hegðunarfræði.

Þeir foreldrar sem vilja nýta tækifærið og æfa sína eigin hegðunarfræði geta tekið sig á í fullorðinsaganum: stundvísi, kurteisi og umferðarreglunum :)

© 2016 - Karellen